14. desember 2015

Kvika lýkur vel heppnuðu hlutafjárútboði Nýherja

Kvika lauk fyrir helgi hlutafjárútboði fyrir Nýherja [NASDAQ OMX auðkenni: NYH]. Um var að ræða lokað hlutafjárútboð að fjárhæð 40 milljónir króna að nafnverði eða sem nemur 9,76% af útgefnu hlutafé Nýherja. Kynning á útboðinu hófst mánudaginn 7. desember og því lauk með afhendingu tilboða kl. 16, föstudaginn 11. desember. Mikill áhugi reyndist fyrir hlutabréfum Nýherja, en alls bárust tilboð fyrir 118,9 milljónir að nafnverði eða þreföldu því magni sem í boði var. Tilboðsgengi voru á bilinu 14,5 – 18,0 krónur á hlut. Gengið var að tilboðum fyrir 40 milljónir króna á verðinu 16,0 krónur á hlut og heildarfjárhæð samþykktra tilboða er því 640 milljónir króna.

Kvika mun senda fjárfestum tilkynningu um úthlutun í útboðinu og greiðslufyrirmæli þegar NASDAQ OMX Iceland hefur staðfest að þau nýju hlutabréf, sem útboðið náði til, hafi verið gefin út og verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar.

Til baka