23. maí 2016

Kvika ráðgjafi við sölu á 40% hlut í Iceland Seafood International

Kvika banki hf. hafði umsjón með lokuðu fagfjárfestaútboði á 40% hlut í Iceland Seafood International sem lauk þann 11. maí 2016. Markaðsvirði hlutarins var 2,8 milljarðar króna og seldist allur hluturinn til breiðs hóps fjárfesta. Iceland Seafood International hefur hafið undirbúning fyrir skráningu á First North markaðinn og birti í dag skráningarskjal sem er aðgengileg á heimasíðu félagsins (www.icelandseafood.is).

Iceland Seafood International er leiðandi sölu- og markaðsfyrirtæki í útflutningi á ferskum, frosnum og söltuðum sjávarafurðum. Félagið var stofnað árið 1932 og starfsemi félagsins nær til allra helstu sjávarútvegsmarkaða heims. Höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi og félagið starfrækir sjö starfsstöðvar í Evrópu og Norður Ameríku.

First North er norrænn hliðarmarkaður fyrir hlutabréfaviðskipti sem er sérsniðinn fyrir félög í vexti. First North nýtir sömu innviði og dreifingarnet og Nasdaq Nordic, sem veitir viðskiptaaðilum, skráðum félögum, fjárfestum og öðrum aðilum á markaðnum greiðan aðgang að um 80% af verðbréfamarkaði Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Öll félög skráð á First North verða að hafa samning við viðurkenndan ráðgjafa. Kvika er viðurkenndur ráðgjafi Iceland Seafood við skráningu félagsins á First North markaðinn.  

Til baka