03. ágúst 2016

Eignastýring Kviku valin fremst á Íslandi þriðja árið í röð

Verdlaun_mynd-1Eignastýring Kviku hlýtur World Finance verðlaunin þriðja árið í röð.

Kvika banki er fremstur í flokki íslenskra banka og fjármálafyrirtækja á sviði eignastýringar árið 2016 að mati breska fjármálatímaritsins World Finance. Tímaritið útnefnir árlega fyrirtæki fyrir framúrskarandi árangur og er þetta þriðja árið í röð sem bankinn fær viðurkenninguna „Best Investment Management Company“ á Íslandi. Við matið er meðal annars horft til árangurs, vaxtar, vöruþróunar, viðhorfs til áhættu og samfélagslegrar ábyrgðar.

Á síðustu þremur árum hafa eignir í stýringu hjá Kviku um það bil tvöfaldast. Samruni MP banka og Straums í Kviku fyrir um ári síðan treysti auk þess enn frekar undirstöður bankans. Burðarás Kviku er öflug eignastýring en þar starfar bankinn á breiðum grunni og veitir sparifjáreigendum alhliða fjármálaþjónustu á innlendum og erlendum mörkuðum.

Auk Kviku voru Danske Capital í Danmörku, Skagen Funds í Noregi og Axa Investment Management í Svíþjóð meðal þeirra sem hlutu sömu viðurkenningu í ár.

Sigurður Hannesson í viðtali við World Finance

Í nýjasta tölublaði World Finance er rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra eignastýringar Kviku um efnahagsbatann á Íslandi undanfarin ár, farsæla uppbyggingu fjármagnsmarkaða, hagstæðar aðstæður fyrir losun fjármagnshafta og öflugt teymi eignastýringar Kviku. Sigurður segir m.a. að kröftugur efnahagsbati sé staðfesting þess að frumleg og óhefðbundin stefnumótun geti leitt til framúrskarandi niðurstöðu.

Sigurður segir að eignastýringarteymi Kviku hafi samanlagt yfir 100 ára reynslu af eignastýringu fyrir viðskiptavini. „Við leggjum megináherslu á virka stýringu og teljum aðlögunarhæfni og rétt viðbrögð við ólíkum markaðsaðstæðum lykilatriði til árangurs. Til að tryggja árangur þurfum við því reynslumikið teymi sem þekkir markaðinn og getur brugðist við breytingum á markaði.“

Viðtalið í World Finance í heild má finna á slóðinni: http://www.worldfinance.com/wealth-management/the-world-has-a-lot-to-learn-from-icelands-economic-recovery

Lista yfir þau fyrirtæki sem hlutu verðlaun World Finance í ár má nálgast: http://www.worldfinance.com/awards/investment-management-awards-2016

Til baka