24. mars 2017

Verðbréfamarkaður á tímamótum

Fundur-um-verdbrefamarkadinn---SAJSigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, flutti erindi á morgunverðarfundi Samtaka fjármálafyrirtækja og Nasdaq Iceland sem haldin var fimmtudaginn 23. mars síðastliðinn. Yfirskrift fundarins var „Úr fjötrum hafta – íslenskur verðbréfamarkaður í alþjóðlegu umhverfi“. Erindi Sigurðar Atla hét „Verðbréfamarkaður á tímamótum“ og fjallaði um áskoranir og tækifæri sem felast í því að Ísland sé orðið hluti af alþjóðamarkaði á ný í kjölfar haftaafnáms. 

Ísland þarf stefnulega áætlun

Sigurður Atli sagði að Ísland væri á ný orðið hluti af alþjóðlegum fjármálamarkaði. Hagaðilar gætu dreift áhættunni víðar en áður, nýtt möguleika til sparnaðar og fjárfestinga sem ekki standi til boða á íslenskum markaði. Þeir hafi því á ný möguleika til beinna fjárfestinga erlendis og geti nýtt þekkingu sína, sköpunargleði, sérhæfingu og fjármagn sitt til vaxtar á nýjum mörkuðum. Samtímis séu til staðar nýir möguleikar fyrir erlenda aðila til sparnaðar og fjárfestinga hér á landi. „Möguleikar til fjárfestinga í íslenskri þekkingu, íslenskri sköpun, íslenskri tækni og íslenskri framleiðslu sem hefur sérstöðu í alþjóðlegu samhengi. Samanburður innlendra og erlendra fjárfestingamöguleika verður gagnsærri. Unnt er að hagnýta þann samanburð og ráðstafa fjármagninu þar sem það hefur mest notagildi,“ sagði Sigurður Atli.  

Hann sagði einnig að möguleikar til verðmætasköpunar fyrir samfélagið margfaldist, lífskjör batni með opnun hagkerfisins. Ísland standi betur að vígi í samkeppninni um réttu þekkinguna enda leiti réttu einstaklingarnir þangað sem lífskjörum þeirra sé best borgið. „Opnun hagkerfisins, ein og sér, er góð en notagildi hennar fyrir samfélagið stóreykst ef til staðar er stefnuleg áætlun fyrir Ísland í heild.“

Verðbréfamarkaðurinn hluti af innviðum samfélagsins

Sigurður Atli sagði verðbréfamarkaðinn hluta af innviðum samfélagsins og gegndi því mikilvægu hlutverki. Hann væri annars vegar vettvangur fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkisins til að afla sér fjármagns hins vegar fyrir þá sem vilji fjárfesta. Hann sé jafnframt mælistika á verðmæti fyrirtækja og krafna, framboðs og eftirspurnar á hverjum tíma. „Með skýrum leikreglum og gagnsæi í viðskiptum lækkar markaðurinn viðskiptakostnað í samfélaginu og gerir viðskipti möguleg sem ella yrðu hugsanlega ekki,“ sagði Sigurður Atli og bætti við að notagildi markaðarins fyrir samfélagið væri mikið. „Það er í raun kraftaverk að í jafn litlu hagkerfi og því íslenska sé starfræktur alvöru verðbréfamarkaður“. 

Verðbréfamarkaðurinn starfi eftir alþjóðlegri umgjörð

Samtök fjármálafyrirtækja gáfu út skýrslu um starfsumgjörð íslensks verðbréfamarkaðar í október 2014. Þar var m.a. að finna 22 úrbótatillögur verðbréfahóps SFF sem í sátu stjórnendur og sérfræðingar sem starfa við verðbréfamarkaðinn. Sigurður Atli, sem situr í hópnum, sagði að á rúmum tveimur árum hafi úrbætur verið gerðar á fimm atriðum og að fleiri væru í vinnslu. 

Taldi hann það of langt mál að fara í hvert og eitt úrbótaatriði en að forsendur í vinnu verðbréfahópsins miðuðust við að innlendur verðbréfamarkaður starfi eftir alþjóðlega viðurkenndri umgjörð. Þannig geti innlendur verðbréfamarkaður þjónað sem lærdómsferli fyrir aðgang að stærri mörkuðum fyrir útgefendur verðbréfa, milliliði og fjárfesta hér á landi og einnig greitt fyrir aðgengi erlendra þátttakenda að íslenskum markaði. „Jafnframt þarf uppbygging markaðarins að vera einföld og hagkvæm og auka þannig möguleika útgefenda til að afla sér fjármagns. Losun fjármagnshafta og sú staðreynda að Ísland er á ný orðið hluti af alþjóðlegum fjármálamarkaði passar vel við þessar forsendur,“ sagði Sigurður Atli.

Gæta þarf að jafnræði í skattlagningu 

Þrátt fyrir að losun fjármagnshafta væri stórt skref telur Sigurður Atli enn atriði sem bæta þyrfti úr ef jafnræði eigi að nást á frjálsum markaði. Nefndi hann sem dæmi skattlagningu fjármálafyrirtækja hér á landi. Með sértækri skattlagningu, þ.e. fjársýsluskatti, sérstökum fjársýsluskatti og bankaskatti væri skattlagning hér á landi umtalsvert meiri en erlendra samkeppnisfyrirtækja. „Viðskiptakostnaður við markaðinn hér verður því meiri. Raunar er staðan einnig sú að ríkið sem leggur á skattana er sjálft eigandi fjármálafyrirtækja sem eru í samkeppnisrekstri. Ríkið sem eigandi að fjármálafyrirtækjum þarf auðvitað ekki að taka tillit til skatta þegar það gerir arðsemiskröfu til hlutabréfa sinna í bönkunum. Þannig er ríkið ekki aðeins í samkeppni við borgara sína, sem mér hefur alltaf þótt skrítin hugmynd, heldur skattleggur ríkið borgarana einnig sérstaklega og stendur þannig betur að vígi í samkeppninni,“ segir Sigurður Atli. Það sé því klikkuð hugmynd að sértæk skattlagning sé á fyrirtæki sem eru í beinni og harðri samkeppni við ríkið.

Til baka