09. nóvember 2017

LYFJA HF. - Opið söluferli

Fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hf., fyrir hönd Lindarhvols ehf., auglýsir Lyfju hf. til sölu. Lyfja er stærsta keðja apóteka og heilsuverslana á Íslandi en samtals rekur félagið 50 apótek, útibú og verslanir, auk minni útibúa, sem staðsett eru um land allt undir merkjum Lyfju, Apóteksins og Heilsuhússins. Einnig á Lyfja dótturfélagið Heilsu ehf. sem sérhæfir sig í innflutningi og dreifingu á matvörum, vítamínum, snyrtivörum og almennri apóteksvöru.

Söluferlið fer eftir samþykktum reglum Lindarhvols ehf., sem er að fullu í eigu ríkissjóðs, en þar kemur fram að leggja skuli áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar að undangengnu opnu tilboðsferli þar sem gætt er gagnsæis og jafnræðis bjóðenda.

Frá og með fimmtudeginum 9. nóvember 2017 geta áhugasamir fjárfestar sett sig í samband við fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka og nálgast stutta kynningu á félaginu, trúnaðaryfirlýsingu og upplýsingablað um fjárfesti. Þeir fjárfestar sem uppfylla skilyrði um þátttöku í söluferlinu fá í framhaldinu afhent ítarleg sölugögn um félagið.

Áhugasömum bjóðendum er boðið að skila inn óskuldbindandi tilboði fyrir kl. 16 föstudaginn 15. desember. Þeim sem eiga hagstæðustu tilboðin verður boðin áframhaldandi þátttaka í ferlinu og munu þeir fá aðgang að rafrænu gagnaherbergi með ítarlegri gögnum, kynningu á félaginu frá stjórnendum Lyfju hf. og gefast kostur á að framkvæma áreiðanleikakönnun á félaginu.

Áhugasamir fjárfestar eru beðnir um að hafa samband við fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka með tölvupósti á netfangið lyfja@kvika.is.

Til baka