Kvika banki hf. og Virðing hf. sameinuðust í dagslok í dag og mun sameinað
félag opna mánudaginn 20. nóvember undir nafni og kennitölu Kviku. Með
samrunanum tekur Kvika yfir öll réttindi og skyldur Virðingar.
Starfsemi sameinaðs félags hér á landi fer nú öll fram í húsnæði Kviku í
Borgartúni 25.
Sameining félaganna hefur ekki breytingar í för með sér fyrir viðskiptavini.
Netföng og borðsímanúmer starfsmanna Virðingar munu þó breytast en upplýsingar um
öll netföng og símanúmer verður hægt að finna á heimasíðu bankans www.kvika.is.
Kvika er eitt umsvifamesta félag í eignastýringu hér á landi og eftir
samruna eru um 285 milljarðar í stýringu hjá félaginu.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku:
„Það er ánægjulegt að hinu formlega
samrunaferli sé lokið. Hjá sameinuðu félagi kemur saman öflugur hópur
sérfræðinga og framundan eru fjölmörg tækifæri til sóknar.“
Um Kviku banka hf.
Kvika er eini sjálfstæði og
sérhæfði fjárfestingabanki landsins. Bankinn sinnir þörfum viðskiptavina á
afmörkuðum syllum með fagþekkingu og sérhæfðu vöruframboði. Burðarás Kviku er
öflug eignastýring og veitir bankinn sparifjár- og innlánseigendum alhliða
fjármálaþjónustu.
Hjá Kviku starfar samhentur hópur
99 sérfræðinga sem nær árangri í krafti menntunar, markaðsþekkingar og
víðtækrar reynslu. Eignarhald Kviku er gagnsætt og er hann eini bankinn sem er
að fullu í eigu einkaaðila s.s. lífeyrissjóða, fyrirtækja og einstaklinga.