27. maí 2019

Marinó Örn Tryggvason nýr forstjóri Kviku

Ármann Þorvaldsson hefur farið fram á að breyta hlutverki sínu hjá Kviku og hætta sem forstjóri Kviku, en mun samtímis taka við starfi aðstoðarforstjóra bankans. Starf hans mun í framhaldinu einskorðast við uppbyggingu viðskiptatengsla, þróun viðskiptatækifæra og að styðja við áframhaldandi uppbyggingu á starfsemi bankans í Bretlandi.

Stjórn bankans hefur ráðið Marinó Örn Tryggvason sem forstjóra Kviku, en hann hefur gegnt stöðu aðstoðarforstjóra frá 2017. Marinó starfaði áður hjá Arion banka og forvera hans frá árinu 2002. Marinó er með BSc í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Kristín Pétursdóttir, stjórnarformaður:
„Það er komið að ákveðnum tímamótum hjá Kviku, nú þegar tvö ár eru liðin frá því að Ármann og Marinó hófu störf hjá bankanum. Ármann óskaði fyrir stuttu eftir því að breyta starfsskyldum sínum og það leiddi til þeirrar niðurstöðu að Ármann og Marinó skipta um hlutverk. Þeir hafa unnið vel saman og byggt upp, ásamt öðrum stjórnendum og starfsmönnum, öflugan banka. Ármann mun sinna daglegum rekstri í minna mæli en Marinó hefur gert en þess í stað einbeita sér að öflun viðskiptatækifæra. Ég vænti þess að breytingarnar leiði til enn aukinnar áherslu á tekjuöflun, auk þess sem reynsla og þekking Marinós mun nýtast vel í áframhaldandi uppbyggingu bankans.“

Ármann Þorvaldsson:
„Það hefur verið einkar ánægjulegt að stýra farsælum rekstri Kviku á undanförnum tveimur árum. Skráning á markað og þær sameiningar sem bankinn hefur ráðist í hafa gengið vonum framar og góð rekstrarniðurstaða hefur skilað sér í prýðilegri ávöxtun hluthafa bankans á þessu tímabili. Á sama tíma hefur verið lagður grunnur að ýmsum spennandi verkefnum sem geta skapað verðmæti fyrir hluthafa bankans á næstu misserum.

Forstjórastarf í banka felur í sér umtalsverðar stjórnunarlegar skyldur sem ég hef ekki áhuga á að sinna til langframa. Hins vegar hef ég mikinn áhuga á að starfa áfram með því frábæra fólki sem vinnur hjá Kviku og vil einbeita mér að verkefnum sem snúa að því að styrkja tengsl við viðskiptavini og þróa viðskiptatækifæri. Uppbyggingin á starfsemi bankans í Bretlandi hefur gengið mjög vel á undanförnum árum og ljóst að þar eru sóknartækifæri til framtíðar fyrir Kviku. Með þessari breytingu tel ég að hægt sé að nýta betur reynslu mína, þekkingu og tengsl í Bretlandi til þess að styðja við áframhaldandi vöxt þar.

Ég fagna því mjög að geta starfað áfram með nýjum forstjóra, Marinó Erni Tryggvasyni, en samstarf okkar hingað til hefur gengið frábærlega og ég tel að hann muni leiða bankann farsællega.“

Marinó Örn Tryggvason:
„Á undanförnum tveimur árum hefur verið sérstaklega gefandi að kynnast og vinna með starfsmönnum bankans. Hjá Kviku starfar hópur öflugra starfsmanna sem verður gaman að starfa áfram með. Starfsumhverfi fjármálafyrirtækja er að breytast og Kvika er í einstakri stöðu til þess að nýta tækifæri framtíðarinnar. Það er spennandi verkefni að halda áfram að byggja upp öflugt fjármálafyrirtæki með stjórn og starfsmönnum bankans.“

Til baka