24. mars 2020

Aðalfundur Kviku 26.03.2020

Kvika banki hf.: Framkvæmd aðalfundar Kviku árið 2020 og framboð til stjórnar

Aðalfundur Kviku banka hf. verður haldinn fimmtudaginn 26. mars 2020, kl. 16:30, á Hilton Reykjavík Nordica, 2. hæð, Suðurlandsbraut 2, 108 Reykjavík.

Á dagskrá fundarins verða eftirfarandi mál:

  1. Skýrsla stjórnar félagsins um starfsemi þess síðastliðið starfsár
  2. Ársreikningur félagsins fyrir árið 2019 og ákvörðun um meðferð hagnaðar félagsins á reikningsárinu
  3. Tillaga um starfskjarastefnu félagsins
  4. Tillaga um að heimila félaginu að kaupa eigin hluti
  5. Tillaga um lækkun hlutafjár og samsvarandi breyting á samþykktum
  6. Tillaga stjórnar um breytingar á samþykktum félagsins
  7. Kosning stjórnar og varastjórnar félagsins
  8. Kosning endurskoðenda félagsins
  9. Ákvörðun þóknunar til stjórnarmanna og nefndarmanna í undirnefndum stjórnar
  10. Samantekt stjórnar um hlutafjáreign og samstæðutengsl
  11. Önnur mál löglega fram borin

Hluthöfum gafst kostur á að fá mál tekin fyrir á hluthafafundi með því að leggja fram skriflega eða rafræna kröfu fyrir kl. 16:30 þann 16. mars sl. Engin slík krafa hefur borist félaginu og því stendur dagskráin óbreytt frá fundarboði.

Frestur til þess að gefa kost á sér til setu í stjórn félagsins var til kl. 16:30 þann 21. mars sl. og bárust framboð frá fimm aðilum til setu í aðalstjórn og tveimur til setu í varastjórn innan þess frests. Stjórn hefur yfirfarið og staðfest lögmæti framboða. Sjálfkjörið er því í stjórn félagsins. Upplýsingar um frambjóðendur má finna hér í viðhengi og á heimasíðu félagsins, www.kvika.is/adalfundur. Þar er einnig að finna öll fundargögn. Glærukynning af fundinum verður einnig birt opinberglega.

Hægt verður að fylgjast með fundinum í gegnum vefstreymi, sem verður aðgengilegt á vefsvæði fundarins: www.kvika.is/adalfundur. Þeir hluthafar sem óska eftir að fá aðgang að streyminu geta óskað eftir lykilorði með því að senda beiðni á netfangið hluthafar@kvika.is.

Hluthafar geta einnig lagt fram spurningar vegna aðalfundarins með því að senda erindi á framangreint netfang. Hægt er að senda fyrirspurnir hvort sem er fyrir fundinn eða á meðan fundi stendur.

Samkvæmt fundarboði er hluthöfum heimilt að óska eftir að greiða atkvæði um mál sem eru á dagskrá fundarins skriflega. Frestur hluthafa til að kjósa skriflega hefur verið lengdur. Í ljósi takmarkana heilbrigðisráðherra á samkomum biður stjórn hluthafa við þessar fordæmalausu aðstæður að mæta ekki á fundinn heldur kjósa fyrirfram og skriflega um tillögur fundarins og veita fundarstjóra umboð til að kjósa á fundinum fyrir sína hönd. Atkvæðaseðill með umboði er meðfylgjandi tilkynningu þessari og aðgengilegur á heimasíðu félagsins: www.kvika.is/adalfundur.

Til þess að greiða atkvæði skriflega fyrirfram eru hluthafar beðnir um að fylla út og senda atkvæðaseðil, undirritaðan, dagsettan og með undirritun tveggja vitundarvotta á netfangið hluthafar@kvika.is eigi síðar en kl. 13:00 þann 26. mars 2020.

Til baka