08. júní 2020

Dótturfélag Kviku í Bretlandi semur um stýringu á tveimur breskum veðlánasjóðum

KKV Investment Management Ltd., dótturfélag Kvika Securities Ltd., sem er dótturfélag Kviku banka hf. í Bretlandi, hefur formlega gengið frá samningum um stýringu á tveimur breskum veðlánasjóðum. Samtals er hrein eign (e. Net Asset Value) sjóðanna rúmlega £425 milljónir, andvirði um 70 milljarða króna. 

Í lok apríl var tilkynnt um óskuldbindandi samkomulag KKV við stjórn SQN Asset Finance Income Fund um að KKV myndi taka yfir stýringu sjóðsins frá og með byrjun júní. Nú hefur verið gengið frá formlegum samningum þess efnis og verður heiti sjóðsins breytt í KKV Secured Loan Fund.  Hlutabréf sjóðsins eru eftir sem áður skráð á aðallista kauphallarinnar í London (e. London Stock Exchange).

Þá hefur KKV einnig tekið við stýringu veðlánasjóðsins SQN Secured Income Fund, en hrein eign sjóðsins er rúmlega £45 milljónir, andvirði tæplega 8 milljarða króna.  Hlutabréf sjóðsins eru einnig skráð í kauphöllinni í London.

Í tengslum við yfirtöku samninganna mun KKV ráða um 18 sérfræðinga en meirihluti þeirra hefur  unnið við stýringu sjóðanna undanfarin ár. 

Ken Hillen, sem hefur um 40 ára reynslu úr bankageiranum í Bretlandi, tekur við sem stjórnarformaður og Dawn Kendall verður  fjárfestingastjóri (e. Chief Investment Officer) KKV. Sjá nánar á heimasíðu félagsins kkvim.com.

Vegna kostnaðar í tengslum við samningana, sem fela m.a. í sér ráðningu starfsfólks og greiðslur til fyrrverandi stýringaraðila, er gert ráð fyrir að áhrif sjóðanna á afkomu starfseminnar í London á árinu 2020 verði lítil.

 

Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kvika Securities Ltd., segir:

„Við erum afar ánægð með að hafa lokið þessum samningum og erum spennt yfir því mikla tækifæri sem KKV stendur frammi fyrir. Við tökum yfir reynslumikið teymi sem hefur unnið við stýringu þessara sjóða undanfarin ár og styrkjum það enn frekar með reyndu og öflugu lykilfólki.“

 

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka hf., segir:

,,Kvika hóf starfsemi í Bretlandi í byrjun árs 2017. Reksturinn hefur gengið vel og skilaði hagnaði á síðasta ári. Þeir nýju samningar sem KKV hefur nú gert um stýringu tveggja sjóða sem skráðir eru í Kauphöllinni í London eru því sérstaklega ánægjuleg skref fyrir starfsemi okkar í Bretlandi og fellur vel að þeirri stefnu Kviku að leggja áherslu á eigna- og sjóðastýringu.“

 

Nánari upplýsingar veitir Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kvika Securities Ltd., s. 691 9366, gunnar@kvika.co.uk

Nánari upplýsingar má einnig finna í tilkynningu frá stjórnum SQN Asset Finance Fund og SQN Secured Income Fund sem birtust í kauphöllinni í London í morgun:

https://www.londonstockexchange.com/news-article/SQN/appointment-of-investment-manager/14568259

https://www.londonstockexchange.com/news-article/SSIF/appointment-of-investment-manager/14569355

Til baka