01. september 2020

Eignastýringarstarfsemi Kviku sameinast í einu félagi, Kviku eignastýringu hf.

Síðustu misseri hefur verið unnið að því að endurskipuleggja eigna- og sjóðastýringarstarfsemi samstæðu Kviku banka hf., kt. 540502-2930, Katrínartúni 2, 105 Reykjavík eins og tilkynnt hefur verið um í tilkynningum bankans annars vegar þann 2. september 2019 og hins vegar þann 30. september 2019.

Í þeim tilkynningum kom fram að stjórn bankans hefði samþykkt að sameina ætti eigna- og sjóðastýringarstarfsemi Kviku í einu dótturfélagi, þ.e. Júpíter rekstrarfélagi hf. Kvika og Júpíter sendu í sameiningu þann 13. nóvember 2019 beiðni til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands þar sem óskað var eftir heimild fyrir því að færa eignastýringarstarfsemi Kviku yfir til Júpíters. Jafnframt skilaði Júpíter þann 11. júní 2020 inn umsókn til FME um starfsleyfi sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða samkvæmt lögum nr. 45/2020.

FME hefur nú samþykk beiðni Kviku og Júpíters um flutning á starfsemi eignastýringar Kviku samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki frá Kviku yfir til Júpíters og veitti Júpíter starfsleyfi til að gerast rekstraraðili sérhæfðra sjóða í samræmi við ákvæði laga nr. 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Samhliða þessum breytingum er fyrirhugað að breyta nafni félagsins úr Júpíter rekstrarfélag hf. í Kvika eignastýring hf. Þeir starfsmenn sem störfuðu hjá Kviku við eignastýringu munu flytjast yfir til Kviku eignastýringar hf. sem og þau verkefni sem mynduðu starfsemi eignastýringar Kviku.

Í kjölfar þessara breytinga verður Kvika eignastýring hf. eitt stærsta eigna- og sjóðastýringarfyrirtæki landsins. Kvika eignastýring hf. mun leggja áherslu á að veita viðskiptavinum breitt þjónustuframboð til þess að fjárfesta innanlands sem og á erlendum mörkuðum. Áhersla verður lögð á að vera leiðandi í eigna- og sjóðastýringu með langtímahagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi. Félagið mun starfrækja úrval skuldabréfa-, lausafjár- og hlutabréfasjóða sem eru rafrænt skráðir og opnir almenningi til fjárfestingar. Félagið mun einnig reka blandaða og sérhæfða sjóði.

Kvika eignastýring hf. mun starfa með leyfi FME sem rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. heimild í lögum nr. 128/2011 og sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða samkvæmt lögum nr. 45/2020. Starfsleyfi félagsins samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki tekur einnig til eignastýringar, fjárfestingarráðgjafar, vörslu og umsýslu hlutdeildarskírteina og hluta sjóða um sameiginlega fjárfestingu og móttöku og miðlunar fyrirmæla varðandi fjármálagerninga. Vörslufyrirtæki félagsins er Kvika.

Nánari upplýsingar veita:

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka hf. í síma 540-3200 eða marino.tryggvason@kvika.is.

Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Júpíters rekstrarfélags hf. í síma 522-0010 eða hannes.hrolfsson@jupiter.is.

Til baka