12. nóvember 2020

Afkomutilkynning fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2020

Á stjórnarfundi þann 12. nóvember 2020 samþykktu stjórn og forstjóri árshlutareikning samstæðu Kviku banka hf. fyrir tímabilið 1. janúar 2020 til 30. september 2020.

Helstu atriði úr árshlutareikningi fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2020

  • Hagnaður fyrir skatta nam 1.533 milljónum króna
  • Hagnaður eftir skatta nam 1.337 milljónum króna
  • Arðsemi eigin fjár eftir skatta nam 11,3%
  • Hagnaður á hlut nam 0,70 krónum
  • Hreinar rekstrartekjur námu 6.077 milljónum króna
  • Rekstrarkostnaður nam 4.004 milljónum króna
  • Heildareignir námu 114,7 milljörðum króna
  • Eigið fé samstæðunnar nam 17,8 milljörðum króna
  • Eiginfjárhlutfall í lok september var 26,9% að teknu tilliti til arðgreiðslustefnu
  • Lausafjárþekja (LCR) var 321%
  • Heildareignir í stýringu námu 538 milljörðum króna
  • Starfsmenn í fullu starfi voru 148 í lok september

Góð afkoma og mikill vöxtur í þóknanatekjum

Hagnaður Kviku banka hf. fyrir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 nam 1.533 milljónum króna og var nokkuð yfir áætlun tímabilsins. Hagnaður eftir skatta nam 1.337  milljónum króna. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 11,3% en arðsemi eigin fjár á þriðja ársfjórðungi nam 10,3%.

Hreinar vaxtatekjur námu 1.328 milljónum króna og breyttust lítillega á milli ára. Hreinar þóknanatekjur námu 4.329 milljónum króna og jukust um 20% á milli ára. Fjárfestingartekjur námu 352 milljónum króna og drógust saman um 19% á milli ára. Hrein virðisbreyting var neikvæð um 228 milljónir króna og skýrist að mestu leyti af varúðarfærslum vegna COVID-19.

Rekstrarkostnaður nam 4.004 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og hækkaði um 0,3% á milli ára, sem var í samræmi við áætlanir.

Sterkur efnahagsreikningur

Í lok september 2020 námu heildareignir 114,7 milljörðum króna samanborið við 105,6 milljarða króna í lok árs 2019. Útlán til viðskiptavina námu 28,7 milljörðum króna í lok september og drógust saman um 1,4 milljarða króna á tímabilinu. Lausafjárstaða bankans er mjög sterk, handbært fé og innstæður í Seðlabanka námu 28,1 milljarði króna í lok september en því til viðbótar námu ríkistryggð skuldabréf 26,5 milljörðum króna. Lausafjárhlutfall var 321% í lok september samanborið við 246% í lok árs 2019 og var langt umfram kröfur um 100% lágmarksþekju. Stefnt er að lækkun hlutfallsins á næstu mánuðum en það er töluvert umfram langtímamarkmið bankans.

Eigið fé nam 17,8 milljörðum króna og var áhættuvegið eiginfjárhlutfall 26,9% að teknu tilliti til arðgreiðslustefnu bankans sem segir til um að greiða eigi út 25% af hagnaði sem arð (27,6% að teknu tilliti til hagnaðar á þriðja ársfjórðungi), samanborið við 24,1% í lok árs 2019. Var eiginfjárhlutfallið talsvert umfram 20,6% eiginfjárkröfu eftirlitsaðila, sem síðast var uppfærð þann 18. mars 2020.

Afkomuáætlun hefur verið uppfærð til hækkunar

Afkomuáætlun Kviku fyrir árið 2020 hefur verið uppfærð. Miðgildi spár um hagnað fyrir skatta hefur verið hækkað um 150 milljónir króna og gerir ráð fyrir að hagnaður fyrir skatta á árinu verði á bilinu 2.000 – 2.300 milljónir króna .Breyting á afkomuspá skýrist einkum af betri afkomu af eignastýringarstarfsemi, sterkri verkefnastöðu í fyrirtækjaráðgjöf og hækkun á hreinum fjárfestingartekjum.

Viðræður um sameiningu Kviku banka hf. og TM hf.

Þann 28. september samþykktu stjórnir Kviku banka og TM hf. að hefja viðræður um sameiningu félaganna. Gert er ráð fyrir því að hluthafar í TM hf. fái sem endurgjald fyrir hlutabréf sín 55% hlut í sameinuðu félagi miðað útgefna hluti félaganna þann 28. september. Viðræðurnar ganga vel og stefnt er að niðurstöðu á næstu vikum.

Marinó Örn Tryggvason forstjóri Kviku:

Rekstur bankans hefur gengið vel. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá hvernig tekist hefur til þrátt fyrir mikla óvissu.

Mig langar til að þakka starfsmönnum sérstaklega fyrir þá þrautseigju sem þeir hafa sýnt á undanförnum mánuðum. Ég er stoltur að starfa með og vera hluti af þessum samhenta hóp.

Kvika er með sterkt eiginfjárhlutfall og lausafjárstaða bankans er langt fyrir ofan innri markmið bankans. Fjárhagslegur styrkleiki hefur verið mikilvægur á þessum óvissutímum. Fréttir vikunnar um að líklega styttist í bóluefni gegn Covid19 gerir mig enn bjartsýnni á framtíðina. Það eru spennandi tímar í vændum því sterk staða bankans gerir það að verkum að hann getur gegnt mikilvægu hlutverki í nauðsynlegri viðspyrnu hagkerfisins.

Í gangi eru viðræður við TM um sameiningu félaganna. Viðræðurnar ganga vel og vænta má niðurstöðu á næstu vikum.

Til baka