09. september 2021

Styrkjum úthlutað úr Hvatningarsjóði Kviku

Nýverið fór fram formleg úthlutun styrkja úr Hvatningarsjóði Kviku fyrir skólaárið 2021–2022. Ármann Þorvaldsson, aðstoðarforstjóri Kviku banka, úthlutaði styrkjum. Alls voru það sex iðnnemar og átta kennaranemar sem hlutu styrki að þessu sinni.

Hvatningarsjóður Kviku hefur það hlutverk að hvetja og styrkja ungt fólk til iðn- og kennaranáms. Markmið sjóðsins er að efla umræðu og vitund um mikilvægi iðn- og kennaranáms og þýðingu starfa sem því tengjast fyrir íslenskt atvinnulíf. Sjóðurinn er samstarfsverkefni Kviku, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Samtaka iðnaðarins.

Ármann Þorvaldsson, aðstoðarforstjóri Kviku banka:

„Það er yfirlýst stefna Kviku að hafa jákvæð langtímaáhrif á samfélagið. Samfélög sem leggja áherslu á hugvit og nýsköpun verða leiðandi á komandi árum að okkar mati og menntun því ein af grunnstoðum sem mikilvægt er að hlúa vel að. 

Við ákváðum á sínum tíma að styðja við efnilega einstaklinga til iðn- og kennaranáms vegna þess að okkur þóttu þær námsgreinar ekki fá þá athygli sem þær áttu skilið og umsóknum í þær hafði farið fækkandi. Það er því gaman að sjá þá auknu aðsókn sem hefur orðið í bæði iðn- og kennaranám frá árinu 2018 þegar við byrjuðum með Hvatningarsjóðinn.  Þegar fjöldi brautskráðra í iðnnámi er skoðaður kemur í ljós að á árunum 2018-2020 hefur orðið um 25% aukning. Einnig má nefna að á vorönn 2021 sótti rúmlega helmingur allra umsækjenda framhaldsskóla um í iðn- og starfsnámi samkvæmt upplýsingum frá Samtökum iðnaðarins. Þá hefur verið mikil aukning umsókna í kennaranám sl. ár og þá sérstaklega árið 2020 þegar metfjöldi sótti um. Þetta eru virkilega ánægjuleg tíðindi.“

Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins:

„Samtök iðnaðarins vilja veg iðnnáms sem mestan enda mikilvægt að menntakerfið mæti þörfum atvinnulífsins og kröfum framtíðarinnar. Kvika banki hefur haft forystu um að hvetja og styrkja ungt fólk til iðnnáms á undanförnum árum og við hjá Samtökum iðnaðarins erum stolt af því að taka þátt í því mikilvæga verkefni. Við óskum öllum styrkþegunum til hamingju og óskum þeim velfarnaðar í því sem þeir taka sér fyrir hendur í framtíðinni.“

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra:

„Hvatning af þessu tagi er mikilvæg, ekki aðeins fyrir þá einstaklinga sem eiga í hlut heldur felst í henni viðurkenning á samfélagslegu mikilvægi iðn- og kennaramenntunar í landinu. Á því sviði hafa stórkostlegar breytingar orðið á undanförnum árum, bæði kerfis- og viðhorfsbreytingar sem hafa aukið áhuga fólks á að sækja sér slíka menntun. Sú breyting er samfélaginu öllu til góðs.“

Eftirfarandi nemar hlutu styrk:

Anna Kristín Semey Bjarnadóttir iðnnemi

Nemi í málaraiðn í Byggingatækniskólanum.

Auður Björnsdóttir iðnnemi

Nemi í húsgagnasmíði í Tækniháskólanum.

Dan Theman Docherty iðnnemi

Nemi á húsasmíðabraut í Tækniskólanum.

Valgeir Jökull Brynjarsson iðnnemi

Nemi í húsasmíði í Verkmenntaskólanum á Austurlandi.

Þorri Líndal Guðnason iðnnemi

Nemi í margmiðlunartækni og rafeindavirkjun í Tækniskólanum.

Helgi Halldórsson iðnnemi

Nemi í vélfræði í Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Rán Ragnarsdóttir kennaranemi

Nemi í uppeldis- og menntunarfræði í Háskóla Íslands.

Marinó Axel Helgason kennaranemi

Nemi í meistaranámi í grunnskólakennslu í Háskóla Íslands.

Bjartur Sólveigar Gunnarsson kennaranemi

Nemi í grunnskólakennslu yngri barna í Háskóla Íslands.

Árnína Björt Heimisdóttir kennaranemi

Nemi í meistaranámi á menntavísindasviði í Háskóla Íslands.

Hafdís Gígja Björnsdóttir kennaranemi

Nemi í meistaranámi í kennsluréttindum í grunnskólum í Háskólanum á Akureyri.

Kristín Baldey Rúnudóttir kennaranemi

Nemi í meistaranámi í kennslufræðum í Háskóla Íslands.

Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir kennaranemi

Nemi í meistaranámi í kennslufræðum í Háskóla Íslands.

Viktor Ingi Jónsson kennaranemi

Nemi á grunnskólakjörsviði í Háskólanum á Akureyri.

Nánari upplýsingar um Hvatningarsjóð Kviku má finna hér.

Hvatningarsjóður 2021 mynd.jpg

Frá vinstri til hægri ofan frá:

Þorri Líndal Guðnason, Bjartur Sólveigar Gunnarsson og Dan Theman Docherty.

Hafdís Gígja Björnsdóttir, Kristín Baldey Rúnudóttir, Árnína Björt Heimisdóttir og Auður Björnsdóttir.

Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir, Valgeir Jökull Brynjarsson, Anna Kristín Semey Bjarnadóttir og Marinó Axel Helgason.

Á myndina vantar Rán Ragnarsdóttur og Viktor Inga Jónsson.

Kvika óskar styrkþegum til hamingju.

Til baka