12. október 2021

Kvika gefur út græna fjármálaumgjörð í fyrsta sinn

Kvika hefur gefið út græna fjármálaumgjörð (e. Green Financing Framework) sem rammar inn stefnu bankans í umhverfisvænni fjármögnun og lánveitingum. Græn fjármálaumgjörð Kviku lýsir meðal annars sjálfbærnistefnu bankans, stjórnkerfi Kviku í sjálfbærni, og hvernig fjármunum er úthlutað til grænna verkefna á borð við umhverfisvænar lánveitinga.

Fjármögnun sem fellur undir umgjörðina getur meðal annars falið í sér útgáfu grænna skuldabréfa og öflun grænna innlána. Kvika gaf nýverið út græna framtíðarreikninga í gegnum vörumerki sitt Auði, sem er fyrsta vara Kviku sem fellur undir umgjörðina. Í grænu fjármálaumgjörðinni er með skýrum og gegnsæjum hætti gerð grein fyrir þeim skilyrðum sem lánveitingar bankans þurfa að uppfylla til að teljast umhverfisvænar. Slíkar lánveitingar geta meðal annars snúið að orkuskiptum í samgöngum, umhverfisvottuðum byggingum og endurnýjanlegri orku.

„Mikilvægasta verkefni samtímans er sjálfbærni. Framtíðin skiptir okkur öll miklu máli enda eigum við, og afkomendur okkar, eftir að vera þar allt okkar líf. Mikilvægt er að fjármálastofnanir, eins og aðrir, láti sig loftslagsmál varða. Það er einstaklega ánægjulegt að geta nú kynnt græna fjármálaumgjörð Kviku, sem skapar farveg fyrir bankann til að beita sér markvisst á sviði grænnar fjármögnunar og lánveitinga, og styðja með þeim hætti við græna uppbyggingu og baráttuna við loftlagsbreytingar.“ segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka hf.

Græn fjármálaumgjörð Kviku byggir á nýjustu viðmiðum ICMA (alþjóðasamtaka aðila á verðbréfamarkaði) og hefur fengið jákvætt álit frá alþjóðlega mats- og greiningarfyrirtækinu Sustainalytics sem er leiðandi á þessu sviði. Í álitinu kemur meðal annars fram að græn fjármálaumgjörð Kviku sé trúverðug og hafi alla burði til þess að vera áhrifarík. Nálgast má græna fjámálaumgjörð Kviku og álit Sustainalytics hér.

Til baka