Um Hvatningarsjóðinn

Hvatningarsjóðurinn er samstarfsverkefni Kviku og mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem hefur það að markmiði að hvetja öfluga einstaklinga til þess að velja nám í menntavísindum og efla vitund um mikilvægi kennaranáms. Við vonumst til þess að sjóðurinn geti lagt eitthvað af mörkum til að auka nýliðun og stemma stigu við vöntun í kennarastéttinni.

Samkeppnishæfni þjóða mun á næstu áratugum ráðast af hæfni og færni fólksins þeirra. Sú hæfni og færni ræðst ekki síst af gæðum menntakerfisins. Kennarar eru burðarás menntakerfisins og því lykilaðilar í mótun samfélagsins til framtíðar.

Viltu verða kennari?

Vissir þú að það er hægt að velja margar leiðir til að verða kennari í leik-, grunn- eða framhaldsskóla. Kennaranemum gefst kostur á að sérhæfa sig í náminu sem stuðlar að aukinni fagmennsku og ánægju í starfi.

Áhugavert efni:

http://www.hafduahrif.is/

http://komduadkenna.is/

Spurt og svarað

Allir sem hyggjast hefja kennaranám á komandi vetri geta sótt um styrk.

Styrktarfjárhæð sjóðsins er 5 milljónir króna árlega í þrjú ár. Heildarstyrkir munu því nema 15 milljónum króna á tímabilinu 2019-2022.

Miðað er við að árlegir styrkir skiptist í tvo flokka, 3x1.000.000 og 4x500.000.  Úthlutunarnefnd er þó heimilt að breyta fjárhæðunum og flokkunum ef sérstakar ástæður réttlæta það að hennar mati.

Kvika auglýsir eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum á tímabilinu mars til maí ár hvert vegna komandi skólaárs. Auglýsingar verða birtar í dagblöðum eða með öðrum sannanlegum hætti. Þá verður auglýst hér efst á síðunni.

Sérstök úthlutunarnefnd fer yfir umsóknir og tekur ákvörðun um styrkveitingar. Úthlutunarnefndina skipa Íris Arna Jóhannsdóttir og Jón Pétur Zimsen, tilnefnd af Kviku og Sonja Dögg Pálsdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Við mat á umsóknum og úthlutun styrkja er m.a. litið til eftirfarandi atriða:

  • Bakgrunns umsækjanda og sögu.
  • Vöntun í viðkomandi tegund náms.
  • Frammistöðu umsækjanda í námi og starfi.
  • Byggðasjónarmiða.

Ávallt verður litið til kynjahlutfalla og leitast við að hafa þau jöfn.

Í september ár hvert fer fram formleg úthlutun styrkja. Fyrir úthlutun verður styrkþegum sendur styrktarsamningur þar sem fram koma þau skilyrði og skuldbindingar sem fylgja styrkveitingu. Undirritun slíks samnings er skilyrði fyrir úthlutun á styrk til styrkþega.

Styrkir eru greiddir út í byrjun júní vegna úthlutunar á árinu á undan. Skilyrði fyrir útgreiðslu styrks er að umsækjandi hafi uppfyllt þau skilyrði og skuldbindingar sem fram koma í styrktarsamningi og úthlutunarreglum sjóðsins.

Hvatningarsjóðurinn er ekki hefðbundinn styrktarsjóður í þeim skilningi að umsækjendur sem þiggja styrk skuldbinda sig til að vinna að framgangi og markmiðum sjóðsins í samstarfi við Kviku. Í því felst m.a. að viðkomandi aðilar skuldbinda sig, án frekara endurgjalds, til að taka þátt í kynningum og auglýsingum á sjóðnum, s.s. viðtölum og myndum, sem Kviku er heimilt að nota.