Hlutafjárútboð í Iceland Seafood International hf.

Skráning og almennt útboð hluta í Iceland Seafood International hf.

Enska/English

Almennt útboð á hlutabréfum í Iceland Seafood hefst kl.12:00 miðvikudaginn 16. október og lýkur kl.16:00 föstudaginn 18. október, nema útgefandi taki ákvörðun um að fresta útboðinu eða lengja áskriftartímabilið. Útboðið tekur til 225.000.000 hluta eða 9,63% heildarhlutafjár í félaginu. Aðeins verður tekið við áskriftum rafrænt á vef Kviku banka. Tvær áskriftarleiðir eru í boði og mun endanleg stærð hvorrar tilboðsbókar taka mið af eftirspurn í útboðinu, bæði hvað varðar verð og magn.

Tilboðsbók A Tilboðsbók B
  • Hver áskrift að andvirði 100.000-10.000.000 kr.
  • Verðbil 9,40-9,82 kr./hlut
  • Eitt endanlegt verð, jafnt eða lægra en í B
  • Hver áskrift að andvirði yfir 10.000.000 kr.
  • Lágmarksverð 9,40 kr./hlut
  • Eitt endanlegt verð, jafnt eða hærra en í A

Taka þátt í útboðinu

Reiknað er með að niðurstöður útboðsins liggi fyrir eigi síðar en mánudaginn 21. október 2019 og að fjárfestar geti nálgast upplýsingar um úthlutun sína þriðjudaginn 22. október. Meginregla við úthlutun verður að taka þeim áskriftum sem berast á hæsta gengi. Markmiðið með útboðinu er meðal annars að stuðla að seljanleika hlutabréfanna og stuðla að fjölbreyttari hluthafahópi. Iceland Seafood áskilur sér rétt til að falla frá útboðinu ef áskrift er ekki móttekin fyrir alla hluti sem boðnir eru til sölu í útboðinu eða ef Nasdaq Iceland hf. samþykkir ekki fyrirliggjandi umsókn félagsins fyrir 18. október 2019 og verða áskriftir þá gerðar ógildar. Nasdaq Iceland mun tilkynna opinberlega um fyrsta dag viðskipta með hlutabréf í Iceland Seafood, en reiknað er með að hann geti orðið þriðjudagurinn 29. október hið fyrsta.

Lýsing staðfest og birt af Fjármálaeftirlitinu

Nánari upplýsingar um útboðið og skilmála sem um það gilda er að finna í lýsingunni, sem er staðfest af Fjármálaeftirlitinu 3 október 2019.. Lýsingin er gefin út á ensku og birt á vefsíðu félagsins, www.icelandseafood.com/investors og á vef útboðsins. Þá hefur félagið birt samantekt á íslensku og er hún þýðing á ensku útgáfunni sem er hið staðfesta eintak. Sé misræmi milli texta í ensku og íslensku útgáfu samantektarinnar gildir sú enska.

Nánari upplýsingar

Fyrirtækjaráðgjöf og Markaðsviðskipti Kviku banka hf. hafa umsjón með því ferli að fá hluti félagsins tekna til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland hf. auk umsjónar með almennu útboði á hlutabréfum í Iceland Seafood hf. Nánari upplýsingar og aðstoð vegna útboðsins má nálgast hjá fyrrnefndum sviðum Kviku banka í gegnum netfangið icelandseafood@kvika.is eða í síma 540-3200.

Minnt er á að fjárfesting í hlutabréfum felur í sér áhættu og að áskrift í útboðinu er bindandi. Áður en tekin er ákvörðun um fjárfestingu í hlutabréfum í Iceland Seafood eru fjárfestar hvattir til að kynna sér allar upplýsingar í lýsingunni í heild sinni og skilmála útboðsins sem þar koma fram.