Ölgerðin: skráning og hlutafjárútboð

Stjórn Ölgerðarinnar Egill Skallagrímsson hf. (hér eftir nefnt „Ölgerðin“) hefur óskað eftir því að öll hlutabréf í félaginu verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland hf. og mun í tengslum við umsóknina og fyrirhugað almennt útboð á hlutabréfum í Ölgerðinni birta skráningarlýsingu dagsetta 17. maí 2022 (hér eftir nefnt „lýsingin“). Lýsingin er gefin út á íslensku og verður birt hér á vef útboðsins.

Almennt útboð á hlutabréfum Ölgerðarinnar hefst kl. 10:00 mánudaginn 23. maí 2022 og lýkur kl. 16:00 föstudaginn 27. maí 2022 nema útgefandi taki ákvörðun um að fresta útboðinu eða lengja áskriftartímabilið. Útboðið tekur til 827.299.496 hluta eða 29,5% af heildarhlutafé félagsins. Tekið verður við áskriftum hér rafrænt á vefsíðu Kviku banka. Tvær áskriftarleiðir eru í boði, Tilboðsbók A (áætlað 40% af útboðinu) og Tilboðsbók B (áætlað 60% af útboðinu) en heimild er til að færa bréf milli tilboðsbóka ef eftirspurnin í útboðinu gefur tilefni til þess.

Ölgerðin áskilur sér rétt til að falla frá útboðinu ef áskrift er ekki móttekin fyrir alla hluti sem boðnir eru til sölu í útboðinu eða ef Nasdaq Iceland hf. samþykkir ekki fyrirliggjandi umsókn félagsins í síðasta lagi þann 27. maí 2022 og verða áskriftir þá gerðar ógildar. Nasdaq Iceland hf. mun tilkynna opinberlega um fyrsta dag viðskipta með hlutabréf í Ölgerðinni, en reiknað er með að hann geti orðið fimmtudagurinn 9. júní 2022 hið fyrsta.

Boðið verður upp á opinn kynningarfund föstudaginn 20. maí næstkomandi kl. 10:00. Fundurinn verður haldinn hjá Ölgerðinni að Grjóthálsi 7-11 og verður einnig boðið upp á vefútsendingu.
Skráning á fundinn fer fram hér.

Tilboðsbók A

Tilboðsbók B

Tilboðsverð Fast verð 8,9 kr. á hlut Tilboð skulu gerð á eða yfir lágmarksverði 8,9 kr. á hlut. Salan fer fram á föstu verði, sem ákvarðast jafnt og það lægsta af samþykktum tilboðum

Stærð útboðs
330.919.798 hlutir (40% af útboðinu) 496.379.698 hlutir (60% af útboði)

Stærð áskrifta

Áskriftir að kaupverði 100 þ.kr. – 20 m.kr.

Áskriftir að kaupverði yfir 20 m.kr. Tilboð ekki yfir stærð útboðs

Meginreglur varðandi úthlutun

Áskriftir verða skertar hlutfallslega, þó þannig að leitast verður við að​ skerða ekki áskriftir undir 1.000.000 kr.

Komi til umfram áskrifta er meginreglan sú að áskriftir eru metnar á grundvelli verðs. Við ákvörðun verðs verður þó horft til markmiða útboðsins, þ.e. að auka fjölbreytni í hluthafahóp, aukins seljanleika hlutabréfanna, virka verðmyndun, heilbrigð viðskipti á eftirmarkaði og annarra langtímasjónarmiða félagsins.

Ef skerðing út frá verði nægir ekki til þess að jafngilda fjölda boðinna hluta í tilboðsbók B verða áskriftir skornar niður hlutfallslega. Þó verður horft til tímanlegra skila á tilboðum. Þannig munu áskriftir sem berast á fyrsta og öðrum degi útboðsins vera skornar niður um ¾ á við áskriftir sem koma inn síðar

Áskriftartímabil

Frá kl. 10:00 þann 23. maí 2022 til kl. 16:00 þann 27. maí 2022

Aðrar upplýsingar

Hlutir fimm stærstu hluthafa og lykilstarfsmanna munu lúta söluhömlum (e. lock-up) í 6 mánuði frá skráningu (fyrsta degi viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland). Í kjölfar skráningar mun helmingur hluta þeirra losna undan söluhömlum eftir 3 mánuði og allir hlutir verða lausir eftir 6 mánuði​

Birt verður vefslóð við opnun útboðs

Nánari upplýsingar

Upplýsingar um Ölgerðina og skilmála útboðsins má finna í lýsingu Ölgerðarinnar, sem birt verður þann 17. maí, og í fjárfestakynningu félagsins. Fyrirtækjaráðgjöf og markaðsviðskipti Kviku banka hf. hafa umsjón með því ferli að fá hluti félagsins tekna til viðskipta á Aðalmarkað Nasdaq Iceland hf. auk umsjónar með almennu útboði á hlutabréfum í Ölgerðinni.

Aðstoð vegna útboðsins og frekari upplýsingar má nálgast hjá Kviku banka í gegnum netfangið olgerdin@kvika.is eða í síma 515-2080 / 540-3200