Um Hvatningarsjóðinn

Hvatningarsjóður Kviku hefur það hlutverk að hvetja og styrkja ungt fólk til iðn- og kennaranáms. Markmið sjóðsins er að efla umræðu og vitund um mikilvægi iðn- og kennaranáms og þýðingu starfa sem því tengjast fyrir íslenskt atvinnulíf en skortur er á slíku starfsfólki og er sá skortur víða orðinn hamlandi fyrir starfsemi fyrirtækja og skóla.

Sjóðurinn var stofnaður árið 2020 og tekur við af Hvatningarsjóði iðnnema, stofnaður 2018 og Hvatningarsjóði kennaranema, stofnaður árið 2019.

Samstarfsaðilar Kviku í Hvatningarsjóðnum eru Samtök iðnaðarins og mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Vissir þú af þeim fjölmörgu iðngreinum sem eru í boði og að nemendur fá starfsréttindi strax að loknu náminu? Ef þú hefur lokið iðnnámi og náð þér í praktíska reynslu þá hefur þú betri grunn fyrir mörg störf sem bjóðast í framhaldinu. Það er síðan auðvelt að bæta við sig bóknámi ef það vantar eitthvað uppá til að fá inngöngu í það háskólanám sem þig langar í. 

Vissir þú að það er hægt að velja margar leiðir til að verða kennari í leik-, grunn- eða framhaldsskóla? Kennaranemum gefst kostur á að sérhæfa sig í náminu sem stuðlar að aukinni fagmennsku og ánægju í starfi.

Spurt og svarað

Allir sem hafa þegar hafið, eða hyggjast hefja á komandi vetri, kennaranám eða nám í löggiltum iðngreinum geta sótt um styrk. 

Sjóðurinn veitir styrki að fjárhæð allt að 10 milljónir króna árlega.

Miðað er við að einstaka styrkir séu að bilinu kr. 500.000 og upp í kr. 1.000.000. Úthlutunarnefnd er þó heimilt að hækka og lækka þessar fjárhæðir ef sérstakar ástæður réttlæta það að hennar mati.

Kvika auglýsir eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum á tímabilinu mars–maí ár hvert vegna komandi skólaárs. Auglýsingar verða birtar í dagblöðum eða með öðrum sannanlegum hætti. Þá verða auglýsingar birtar á heimasíðu Kviku.

Sérstök úthlutunarnefnd fer yfir umsóknir og tekur ákvörðun um styrkveitingar. Úthlutunarnefndina skipa:

  • Íris Arna Jóhannsdóttir, forstöðumaður hjá Kviku  (formaður)
  • Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins
  • Jón Pétur Zimsen, skólastjóri Melaskóla
  • Jóhanna Vigdís Arnardóttir, verkefnastjóri í menntamálum hjá Samtökum iðnaðarins
  • Sonja Dögg Pálsdóttir, sérfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu

Við mat á umsóknum og úthlutun styrkja er m.a. litið til eftirfarandi atriða:

  • Bakgrunns umsækjanda og sögu.
  • Vöntun í viðkomandi tegund náms.
  • Frammistöðu umsækjanda í námi og starfi.
  • Byggðasjónarmiða.

Ávallt verður litið til kynjahlutfalla við mat á umsóknum og úthlutun styrkja og leitast við að hafa þau jöfn.

Í september ár hvert fer fram formleg úthlutun styrkja. Fyrir úthlutun skal styrkþegum sendur styrktarsamningur þar sem fram koma þau skilyrði sem fylgja styrkveitingu. Undirritun slíks samnings er skilyrði fyrir úthlutun á styrk til styrkþega.

Styrkir eru greiddir út í byrjun júní vegna úthlutunar á árinu á undan. Skilyrði fyrir útgreiðslu styrks er að umsækjandi hafi uppfyllt þau skilyrði sem fram koma í styrktarsamningi og reglum þessum.

Hvatningarsjóðurinn er ekki hefðbundinn styrktarsjóður í þeim skilningi að umsækjendur sem þiggja styrk skuldbinda sig til að vinna að framgangi og markmiðum sjóðsins. Slíkt kann að fela í sér viðtöl og myndatökur sem Kviku er heimilt að nota.