Samfélagsstefna

Gildi Kviku er langtímahugsun og stefna okkar er að hafa jákvæð langtímaáhrif á samfélagið. Í því felst að þegar við tökum ákvarðanir er ávallt tekið tillit til hvaða áhrif ákvarðanir okkar hafa til lengri tíma litið, hvort sem um er að ræða innri málefni bankans eða málefni viðskiptavina.

Fjárfestingar og viðskiptahættir

Langtímahugsun er mikilvæg þar sem traust viðskiptasambönd verða til á löngum tíma. Við leggjum áherslu á að tryggja fagmennsku í öllu því sem að við tökum okkur fyrir hendur og að ákvarðanir taki mið af gildi bankans.

Við leggjum áherslu á að starfa í sátt við samfélagið meðal annars með því að huga að umhverfi og góðum stjórnarháttum í starfsemi bankans. Framtakssjóðir í rekstri Kviku og dótturfélaga eru áhrifafjárfestar sem leggja áherslu á að styðja stjórnendur með markvissum hætti í að bæta rekstur og árangur félaga í eigu sjóðanna. Kvika hvetur félögin til að sýna samfélagslega ábyrgð, tileinka sér góða viðskipta- og stjórnarhætti, gæta að fjölbreytni í stjórnun og huga að umhverfismálum. Við styðjum sjálfbæra þróun og ætlum að vera leiðandi í framboði á sjálfbærum fjárfestingarkostum til viðskiptavina.

Samfélagið

Hagsæld framtíðarinnar grundvallast á menntun og teljum við menntun eina bestu langtímafjárfestingu sem einstaklingar og samfélög geta ráðist í. Að okkar mati verða samfélög sem drifin eru áfram af hugviti og nýsköpun leiðandi á komandi árum og menntun því einn af hornsteinum samfélagins. Þá teljum við menntun grundvallaratriði í réttindabaráttu kvenna, við verndun barna gegn barnavinnu og kynferðislegri misnotkun, til eflingar mannréttindum og lýðræði og til að stuðla að umhverfisvernd. Vegna þessa höfum við sett sérstaka áherslu á að styðja við menntamál, m.a. í gegnum Hvatningarsjóði Kviku.

Við gerum okkur grein fyrir því að bankinn getur haft einna mest áhrif á samfélagið með því að beita sér á þeim sviðum sem tengjast starfsemi bankans. Því er einnig lögð sérstök áhersla á að hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu og virkni fjármálamarkaða. Við vinnum í því sambandi að því að leita leiða til að virkja betur fjárfesta hér á landi með þróun fjölbreyttari fjárfestingarkosta fyrir þá sem nú þegar eiga hlut að verðbréfamörkuðum, sem og nýja fjárfesta. Þá viljum við taka virkan þátt í umræðu um fjármálamarkaði.

Auk framangreindra aðaláherslna viljum við styðja við ýmis önnur mál sem stuðla að jákvæðri samfélagsþróun í formi samstarfs og minni styrkveitinga.

Mannauður

Við viljum að bankinn sé eftirsóknarverður vinnustaður þar sem allt starfsfólk hefur jöfn tækifæri. Vinnuumhverfi okkar einkennist af sveigjanleika, góðri stjórnun, samvinnu og liðsheild, frumkvæði starfsfólks, jöfnum tækifærum, trausti og heilsusamlegu og jákvæðu umhverfi.

Við leggjum áherslu á að tryggja fagmennsku í öllu því sem að við tökum okkur fyrir hendur og að allar ákvarðanir taki mið af gildi bankans um langtímahugsun.

Umhverfið

Við leggjum áherslu á að lágmarka þau neikvæðu áhrif sem starfsemi bankans kann að hafa á umhverfið og beitum ýmsum úrræðum til að spara orku í starfsstöðvum bankans, takmarka óþarfa prentun og við endurvinnslu.

Við hvetjum starfsmenn til að nýta sér vistvænan samgöngumáta og til að nýta fjarfundabúnað í stað ferðalaga eins mikið og kostur er. 

Samfélagsstefna Kviku 

ESG skýrslu Kviku fyrir árið 2019 má finna hér.