Kvika umsvifamest í viðskiptum í Kauphöll Íslands

þriðjudagur 05. janúar 2016

Kvika var umsvifamest í viðskiptum í Kauphöll Íslands (Nasdaq Ísland) á síðasta ári. Af 4.772 milljarða króna heildarviðskiptum á skuldabréfa- og hlutabréfamarkaði í Kauphöll Íslands árið 2015 nam heildarvelta Kviku 1.268 milljörðum króna, eða um 27% af heildarviðskiptum ársins.

Kvika var með mesta veltu á skuldabréfamarkaði árið 2015. Velta bankans og fyrirrennara hans á skuldabréfamarkaði nam tæpum 1.115 milljörðum króna eða um 28% af allri veltu skuldabréfa í Kauphöllinni. Heildarviðskipti með skuldabréf námu um 3.992 milljörðum króna á árinu 2015.

Kvika var með þriðju mestu veltu á hlutabréfamarkaði árið 2015 en hún nam 153 milljörðum króna eða um 20% af heildarviðskiptum með hlutabréf, sem námu 780 milljörðum króna. Mest voru viðskipti með hlutabréf í Icelandair Group, Marel, Reitum, N1 og Högum. Í lok árs voru 20 félög skráð á aðalmarkað Kauphallarinnar og á Nasdaq First North á Íslandi. 

„Kvika byggir á sterkum grunni í markaðsviðskiptum sem styður við framtíðarsýn okkar sem er að vera sérhæfður fjárfestingabanki.Við erum stolt af hlutverki okkar við að leiða umbreytingar og framþróun á fjármálamarkaði og góður árangur í miðlun skuldabréfa og hlutabréfa á síðasta ári er í samræmi við það hlutverk. Við erum afskaplega stolt af þessum árangri hjá markaðsviðskiptum bankans sem endurspeglar góða samvinnu og samvirkni við viðskiptavini okkar,“ segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku.