Reglur og skilmálar

Mikilvægt er að nýir viðskiptavinir kynni sér vel neðangreinda skilmála Kviku. Allir nýir viðskiptavinir þurfa að fylla út eyðublað vegna peningaþvættis og fjármögnun hryðjuverka.

Ef viðskiptavinir munu stunda verðbréfaviðskipti í gegnum bankann þurfa þeir enn fremur að fylla út eyðublað vegna neytendaverndar fjárfesta – Mifid. Þá ber þeim að kynna sér viðskiptaskilmála Kviku vegna verðbréfaviðskipta ásamt reglum um bestu framkvæmd viðskipta og reglum um hagsmunaárekstra.

Skilmálar 

Eyðublöð vegna peningaþvættis

Starfsreglur 

Lagalegir fyrirvarar

Lagalegur fyrirvari vegna vefsíðu

Upplýsingar á vefsíðu Kviku banka hf. eru birtar samkvæmt bestu vitund Kviku banka hf. á hverjum tíma. Kvika banki hf. ábyrgist ekki réttmæti upplýsinganna hvort sem þær koma frá  bankanum eða þriðja aðila. Upplýsingarnar kunna að breytast án fyrirvara.

Upplýsingar á vefsíðu Kviku banka hf. eru almenns eðlis og fela ekki í sér tilboð eða ráðleggingar um kaup eða sölu fjármálagerninga. Notendur vefsíðunnar bera einir ábyrgð á fjárfestingarákvörðunum sem teknar eru á grundvelli þeirra upplýsinga sem birtast á vefsíðunni. Kvika banki hf. ber hvorki ábyrgð á tjóni sem rekja má til upplýsinga sem birtast á vefsíðu bankans né heldur á tjóni sem rekja má beint eða óbeint til notkunar á vefsíðu bankans. Kvika banki hf. ber heldur ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til þess að ekki er hægt að nota vefsíðuna um lengri eða skemmri tíma.

Kvika banki hf. á höfundarrétt á upplýsingum sem birtast á vefsíðunni nema annað sé tekið fram eða verði leitt af eðli máls. Óheimilt er að dreifa upplýsingunum, afrita þær eða nýta með öðrum hætti án skriflegs samþykkis Kviku banka hf.

Viðskipti með fjármálagerninga eru áhættusöm í eðli sínu. Verðbreytingar í fortíð gefa ekki endilega vísbendingu um verðbreytingar í framtíð. Kvika banki hf. hvetur viðskiptavini sína til að afla sér upplýsinga um eðli verðbréfaviðskipta og eftir atvikum annað sem viðkemur verðbréfaviðskiptum hjá ráðgjöfum bankans.

Vafrakökur

Kvika banki hf. („Kvika“) notar vafrakökur (e. cookies) til að fylgjast með vafri notenda á vefsvæðinu kvika.is, bæta þjónustu Kviku og fleira. Vafrakökur gera Kviku kleift að senda ákveðnar upplýsingar í vafra notenda sem getur auðveldað notendum aðgang með margs konar aðgerðum. Vafrakökur geyma ekki persónuupplýsingar en geta innihaldið texta, númer og dagsetningar, svo dæmi séu tekin. Með því að samþykkja notkun Kviku á vafrakökum er Kviku m.a. veitt heimild til að sníða leit og þjónustu við gesti vefsins til samræmis við fyrri notkun þeirra og auðkenningu, að muna eftir fyrri aðgerðum, að þróa og bæta þjónustu vefsins kvika.is og að safna upplýsingum um umferð og notkun vefsvæðisins.

Þú getur lokað fyrir notkun á vafrakökum í stillingum vafrans sem þú notar. Í flestum vöfrum er að finna leiðbeiningar um hvernig hægt er að slökkva á vafrakökum. 

Lagalegur fyrirvari vegna tölvupósts

Tölvupóstar og viðhengi sem send eru frá netföngum skráðum á Kviku banka hf. kunna að innihalda trúnaðarupplýsingar og/eða einkamál og eru eingöngu ætluð skráðum viðtakendum. Sé efni tölvupósts og viðhengja ótengt starfsemi Kviku banka hf. er sendandi einn ábyrgur. Kvika banki hf. vekur athygli á því að hvers konar upplýsingagjöf, afritun eða dreifing þeirra upplýsinga sem fram koma í tölvupóstum og viðhengjum er óleyfileg og kann að varða við lög. Sért þú ekki réttur viðtakandi tölvupóstsins ertu vinsamlega beðinn um að tilkynna sendanda að þér hafi borist þessi tölvupóstur fyrir mistök, að því loknu að eyða tölvupóstinum og viðhengjum hans, ef einhver eru, án þess að geyma afrit, samanber lagaskyldu þar að lútandi skv. 9. mgr. 47. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti.

Kvika banki hf. ber ekki ábyrgð á rangri eða ófullgerðri sendingu upplýsinganna sem tölvupósturinn inniheldur, né heldur á töfum á afhendingu hans eða tjóni sem kann að verða á tölvukerfi móttakanda. Kvika banki hf. ábyrgist hvorki öryggi tölvupóstsins né að hann sé laus við vírusa eða að íhlutun þriðja aðila hafi ekki átt sér stað.

Upplýsingar um fyrirtæki eða fjármálagerninga hafa eingöngu upplýsingagildi og fela ekki í sér tilboð eða ráðleggingar um kaup eða sölu verðbréfa eða þátttöku í fjárfestingum.

Upptaka símtala, geymsla og vistun gagna

Til að tryggja öryggi viðskiptamanns og bankans er viðskiptamanni kunnugt um að viðskiptasímtöl við bankann kunna að vera hljóðrituð án sérstakrar tilkynningar í hvert sinn. Hið sama gildir um samtöl í gegnum Office Communicator.

Símaupptökur eru gerðar á grundvelli heimildar í lögum um fjarskipti.

Viðskiptamanni er kunnugt um að upptökur kunna að verða lagðar fram í dómsmáli og/eða notaðar sem sönnunargagn í öðrum tilvikum komi upp ágreiningur um hvað aðilum fór á milli. Að öðru leyti skal bankinn fara með upptökur líkt og með aðrar upplýsingar er lúta þagnarskyldu, sbr. 58. til 60. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Öll gögn sem innihalda upplýsingar um viðskipti viðskiptamanna og framkvæmd þeirra eru vistuð hjá bankanum í að lágmarki fimm ár.

Lagalegur fyrirvari vegna Júpíters rekstrarfélags hf.

Júpíter rekstrarfélag hf. hefur útvistað hluta af verkefnum sínum til Kviku banka hf. á grundvelli 18. gr. laga nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Júpíter rekstrarfélag hf. er fjármálafyrirtæki með starfsleyfi sem rekstrarfélag verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu skv. 7. tl. 1. mgr. 4. gr. sbr. c-lið 6. tl. og 7. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Starfsleyfið tekur til reksturs verðbréfa- og fjárfestingarsjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu skv. 7. tölul. 1.mgr. 3.gr. laga nr. 161/2002 og til eignastýringar, fjárfestingarráðgjafar og vörslu og stjórnunar fjármálagerninga í sameiginlegri fjárfestingu skv. 1.-3. tölul. 27. gr. og c-lið 6. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002. Nánari upplýsingar um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði Júpíters rekstrarfélags hf. má finna á www.jupiter.is

Lög um greiðsluþjónustu

Lög um greiðsluþjónustu 120/2011

Með lögum um greiðsluþjónustu er verið að innleiða í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um greiðsluþjónustu. Lögin taka gildi 1. desember 2011. Markmið tilskipunarinnar er að skapa heildstætt og nútímalegt regluverk um rafræna greiðsluþjónustu innan EES. Lögin fjalla m.a. um samræmdar reglur um upplýsingagjöf, réttindi og skyldur notenda og veitenda greiðsluþjónustu. Lögin eiga að tryggja vernd allra notenda greiðsluþjónustu og að greiðslur verði jafn einfaldar, hagkvæmar og öruggar í framkvæmd innan EES eins og innlendar greiðslur.

Hvað er greiðsluþjónusta?

 • Greiðslur inn og út af reikningum.
 • Úttekt á reiðufé af reikningum.
 • Millifærslur, beingreiðslur, boðgreiðslur og greiðslur með greiðslukorti.
 • Útgáfa greiðslumiðla og/eða færsluhirðing
 • Peningasendingar
 • Framkvæmd greiðslna á grundvelli samþykkis greiðanda um hvers kyns fjarskiptaþjónustu – t.d. greiðsluþjónusta á vegum símafyrirtækja

Um hvað gilda lögin?

Lögin gilda í grundvallaratriðum, um allar rafrænar greiðslur, þ.m.t. greiðslur með kreditkortum, debetkortum og millifærslur í banka.
Lögin gilda ekki um greiðslur með reiðufé eða tékkum, auk þess sem fleiri undantekningar er að finna í 2. gr. laganna.

Breytingarnar sem lögin fela í sér eru í stórum dráttum auknar skyldur greiðsluþjónustuveitanda til upplýsingagjafar og aukin réttindi fyrir neytendur.

Aukin réttindi fyrir neytendur

 • Upplýsingar um greiðslur eru skýrari
 • Greiðslur ganga hraðar fyrir sig
 • Aukin neytendavernd

Neytendur njóta ófrávíkjanlegrar verndar samkvæmt lögunum en í ákveðnum tilvikum gildir samningsfrelsi milli greiðsluþjónustuveitanda og notenda sem ekki eru neytendur samkvæmt lögunum.

Upplýsingagjöf og gagnsæi við veitingu greiðsluþjónustu

Greiðsluþjónustuveitanda ber að veita:

 • Upplýsingar um skilmála um þjónustu í tengslum við stakar greiðslur
 • Upplýsingar til greiðanda eftir viðtöku greiðslufyrirmæla um staka greiðslu
 • Upplýsingar til viðtakanda greiðslu eftir framkvæmd stakrar greiðslu
 • Almennar upplýsingar til notenda greiðsluþjónustu áður en samningur eða tilboð vegna greiðslna sem falla undir rammasamninga verða bindandi
 • Upplýsingar um skilmála þjónustu í tengslum við greiðslur sem falla undir rammasamning

Ávalt skal gæta að því að upplýsingar rammasamnings séu aðgengilegar notenda.

Rammasamningur er samningur um greiðsluþjónustu þar sem kveðið er á um framkvæmd einstakra greiðslna  og röð greiðslna í framtíðinni og sem kann að fela í sér skyldu til stofnunar greiðslureiknings og skilmála þar um.

Réttindi og skyldur í tengslum við veitingu og notkun greiðsluþjónustu

Gjaldtaka

 • Ekki er heimilt að innheimta gjald vegna upplýsinga sem skylt er að veita eða vegna leiðréttingarráðstafana eða fyrirbyggjandi ráðstafana, nema lögin kveði á um annað.
 • Erlendar greiðslur:
  Sendandi greiðir gjöld síns banka og móttakandi greiðir gjöld móttökubanka
  Millibanka er óheimilt að taka kostnað af greiðslu ef hún uppfyllir skilyrði laganna.
 • Viðtakanda greiðslu er óheimilt að krefjast gjalds af greiðanda vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils umfram aðra.

Framkvæmd greiðslu

 • Til að greiðsla teljist heimiluð verður greiðandi að hafa samþykkt framkvæmd hennar.
 • Greiðsluþjónustuveitandi skal endurgreiða greiðanda óheimilaða greiðslu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem fram koma í lögunum.
 • Sjálfsábyrgð greiðanda er jafngildi 150 evrum og undantekning er frá greiðsluskyldu greiðsluþjónustuveitanda vegna sviksamlegrar háttsemi greiðanda.
 • Greiðandi á rétt á endurgreiðslu t.d. ef fjárhæð var ekki nákvæmlega tilgreind í heimildinni eða fjárhæðin of há miðað við útgjaldamynstur greiðanda, nema um annað sé samið.
 • Óska skal eftir endurgreiðslu innan 8 vikna frá þeim degi sem fjármunir voru skuldfærðir og ber banka að verða við beiðninni innan 10 daga eða rökstyðja synjun fyrir þann tíma.

Framkvæmdatími greiðslu

 • Greiðsla þarf að hafa skilað sér inn á reikning viðtakanda fyrir lok næsta viðskiptadags.

Röng eða gölluð framkvæmd greiðslu, meðferð persónuupplýsinga o.fl.

 • Greiðsluþjónustuveitandi getur í ákveðnum tilfellum orðið ábyrgur gagnvart greiðanda ef greiðslan á sér ekki stað eða hún er gölluð. Í IV. kafla laganna kemur fram í hvaða tilfellum greiðsluþjónustuveitandi verður ábyrgur gagnvart greiðanda vegna þess að greiðsla á sér ekki stað eða hún er gölluð. Getur það leitt til þess að greiðsluþjónustuveitandi verði ábyrgur fyrir greiðslunni ásamt gjöldum og vöxtum sem falla á notandann af þeim sökum að greiðsla var ekki framkvæmd eða ranglega framkvæmd.

Spurt og svarað um lögin

Um hvað fjalla ný lög um greiðsluþjónustu?

Tilgangur laganna er að skapa heildstætt, og samræmt regluverk um greiðsluþjónustu á EES svæðinu sem og að efla réttarstöðu viðskiptavina fjármálafyrirtækja. Eitt af markmiðum laganna er tryggja að greiðslur milli landa á EES svæðinu verði jafn einfaldar og ef um greiðslu innanlands væri að ræða.

Gilda lögin um innlendar greiðslur jafnt sem erlendar greiðslur?

Lögin gilda um innlendar og erlendar greiðslur ef greiðsla á sér stað innan EES. Bæði sendandi og móttakandi þurfa að vera innan EES svæðisins og greiðslan þarf að vera í mynt sem tilheyrir EES myntum svo að lögin gildi um greiðsluna.

Hvaða réttarvernd færa lögin einstaklingum?

Lögin fela í stórum dráttum í sér auknar skyldur greiðsluþjónustuveitanda til upplýsingagjafar og aukin réttindi fyrir neytendur. Aukin réttindi neytenda felast m.a. auknar upplýsingar um greiðslur, greiðslur ganga hraðar fyrir sig og neytendur njóta aukinnar verndar, t.d. er millibanka ekki lengur heimilt að taka gjald fyrir greiðslu sem uppfyllir skilyrði laganna og greiðsluþjónustuveitendur bera ríkari ábyrgð ef greiðslur eru rangar eða óheimilaðar. Þá er óheimillt að mismuna í gjaldtöku eftir tegund greiðslumiðils og greiðsla þarf að hafa skilað sér inn á reikning viðtakanda fyrir lok næsta vinnudags.

Hafa lögin áhrif á verð fyrir greiðsluþjónustu til einstaklinga eða fyrirtækja?

Bannað er að innheimta gjald vegna upplýsinga sem skylt er að veita samkvæmt lögunum eða vegna leiðréttingaráðstafana, nema lögin kveði á um annað.

Gildir það sama um greiðslur milli landa?

Já. Lögin taka sérstaklega á greiðslum milli landa og settar eru skýrar reglur um gjaldtöku. Þannig greiðir sendandi gjöld síns banka og móttakandi greiðir gjöld móttökubanka. Þá banna lögin að millibanki taki kostnað af greiðslu ef hún uppfyllir skilyrði laganna. Þá er óheimillt að mismuna í gjaldtöku eftir tegund greiðslumiðils.

Á hvaða reikninga hafa lögin áhrif?

Lögin gilda um greiðslureikninga. Greiðslureikningur er reikningur á nafni eins eða fleiri notenda greiðsluþjónustu sem notaður er við framkvæmd greiðslu.

Á hvaða greiðslur hafa lögin áhrif?

Lögin gilda um greiðslur innan EES í evrum auk annarra EES gjaldmiðla, þar á meðal ISK. Lögin gilda um flestar tegundir greiðslna, þ.m.t símgreiðslur, inn- og úttektir á reiðufé, beingreiðslur, skuldfærslur, kredit- og debetkortaviðskipti.

Hvað er greiðsluþjónustu samkvæmt lögunum?

Til greiðsluþjónustu teljast greiðslur inn og út af reikningum, úttekt á reiðufé af reikningum, millifærslur, beingreiðslur, boðgreiðslur, greiðslur með greiðslukorti (kredit- og debetkortum), útgáfa greiðslumiðla og/eða færsluhirðing, peningasendingar og framkvæmd greiðslna á grundvelli samþykkis greiðanda um hvers kyns fjarskiptaþjónustu, t.d. greiðsluþjónustu á vegum símfyrirtækja, annars konar greiðsluþjónusta (síma og netbanka) sem gerir viðskiptavinum kleift að framkvæma greiðslur. 

Hvað með tímaramma á framkvæmd greiðslu?

Greiðsla þarf að hafa skilað sér inn á reikning viðtakanda fyrir lok næsta viðskiptadags.

Hverjir þurfa að uppfylla lög um greiðsluþjónustu?

Allir sem veita greiðsluþjónustu þurfa að starfa í samræmi við lög um greiðsluþjónustu.

Hvernig veit ég hvaða greiðslureikningar, greiðslukort og þjónustu lögin hafa áhrif á?

Upplýsingar um löggjöfina má finna á vefsvæðum fjármálafyrirtækja. Ef þörf er á frekari upplýsingum þá vinsamlegast hafðu samband við þitt fjármálafyrirtæki.

Munu skilmálar fyrir viðskiptareikninga og greiðsluþjónustu breytast?

Fjármálafyrirtækjum ber að hafa uppfært skilmála sína í samræmi við lögin.

Þarf viðskiptavinur að undirrita nýja skilmála?

Nei, þar sem allar breytingarnar eru til hagsbóta fyrir viðskiptavininn þarf ekki formlegt samþykki við þessum breytingum.

Hvaða réttarvernd færa lögin fyrirtækjum?

Lögin tryggja fyrirtækjum margvíslega réttarvernd m.a. hámarkstíma á framkvæmd greiðslu og að greiðslur verði jafn einfaldar innanlands og milli landa á EES svæðinu.  Skýrar er kveðið á um gjöld og kostnað, auk þess sem lagaleg vernd er samræmd innan EES ef um óheimilar eða rangar greiðslur er að ræða.

Taka lög um greiðsluþjónustu öðruvísi á litlum fyrirtækjum en stórum?

Lögin gera ekki greinarmun á stórum og litlum fyrirtækjum.

Neytendavernd fjárfesta

Neytendavernd fjárfesta - MiFID

Þann 1. nóvember 2007 tóku í gildi ný lög um verðbréfaviðskipti. Með þeim breyttust ýmsar mikilvægar reglur sem lúta að því hvernig staðið skuli að viðskiptum með verðbréf.

Breytingarnar eru í samræmi við tilskipun sem gildir fyrir Evrópska efnahagssvæðið (MiFID-tilskipun) en markmið þessara breytinga er að samræma reglur um neytendavernd fjárfesta og skapa sameiginlegan innri markað með fjármálaþjónustu. Áhersla er á aukið eftirlit, faglega framkvæmd og upplýsingagjöf. Þá er löggjöfinni ætlað að tryggja að viðskiptavinir fjármálafyrirtækja, sem eiga í verðbréfaviðskiptum, fái ávallt viðeigandi upplýsingar og ráðgjöf.

Allir sem vilja eiga viðskipti við Kviku þurfa að ganga í gegnum ákveðið ferli og fylla út umsókn hér að ofan áður en viðskipti geta hafist.

Markmið MiFID-tilskipunarinnar fyrir Evrópska efnahagssvæðið er að auka neytendavernd fjárfesta. Tekið er mið af reynslu og þekkingu aðila sem stunda viðskipti á fjármálamörkuðum. Neytendavernd fjárfesta er mismikil og fer minnkandi eftir því sem reynsla og þekking á verðbréfaviðskiptum er talin meiri.

Flokkar fjárfesta

Eftir breytingarnar fá almennir fjárfestar meiri upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum en hingað til. Markmiðið er að skuldbinda fjármálafyrirtæki til að veita viðskiptamönnum nauðsynlegar upplýsingar svo þeir geti tekið upplýstar ákvarðanir um fjárfestingar.

Fjármálafyrirtækjum er skylt að afla upplýsinga hjá fjárfestum til að tryggja að þau geti veitt viðeigandi ráðgjöf og þjónustu.