29. ágúst 2016

Góð afkoma á fyrri hluta árs 2016

Á stjórnarfundi þann 29. ágúst 2016, samþykkti stjórn og forstjóri árshlutareikning samstæðu Kviku banka hf. fyrir tímabilið 1. janúar 2016 til 30. júní 2016.

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku:

Ánægjulegt er að kynna uppgjör Kviku fyrir fyrri hluta árs 2016. Kvika hefur náð þeim rekstrarlegu markmiðum sem sett voru við sameiningu Straums fjárfestingabanka og MP banka. Að baki er vel heppnaður samruni sem grundvallaðist á virðingu og samvirkni þeirra sem að honum komu. Afkoma Kviku er góð og í samræmi við áætlanir, eftir aðeins eitt ár í rekstri. Fjárhagslegur styrkur bankans er mikill. Við byggjum á þeim grunni og nýtum þekkingu og færni starfsfólks Kviku til að sækja fram.

Það er ánægjulegt að Ísland verði á ný hluti af alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Kvika er tilbúin fyrir þær breytingar, enda hefur bankinn verið með umsvifamikla erlenda fjárfestingaþjónustu fyrir viðskiptavini sína undanfarin ár. Þegar vel er að verkum staðið og hugsað er til lengri tíma, er ekki hægt annað en að horfa jákvætt til morgundagsins.“

Góð afkoma í takt við áætlanir

Hagnaður Kviku fyrstu sex mánuði ársins 2016 nam 378 milljónum króna. Arðsemi eiginfjár var 12,3%. Hreinar rekstrartekjur námu 2.164 milljónum króna á tímabilinu samanborið við 2.535 milljónir króna á seinni helmingi 2015. Þóknanatekjur lækka nokkuð milli tímabila sem skýrist einkum af árstíðabundnum sveiflum í tilteknum tekjuliðum.

Rekstrarkostnaður nam 1.668 milljónum króna á fyrri hluta árs 2016. Rekstrarkostnaður lækkaði í takt við áætlun um 13% frá seinni helmingi árs 2015 að teknu tilliti til samrunakostnaðar á fyrra tímabili.

Í lok júní 2016 námu heildareignir samstæðu Kviku 77.825 milljónum króna samanborið við 61.614 milljónir króna í árslok 2015 og nemur hækkunin 26% á tímabilinu. Útlán til viðskiptavina námu 23 milljörðum króna í lok júní 2016. Almenn innlán og peningamarkaðsinnlán jukust verulega um rúma 14 milljarða króna, eða 30%, á árinu. Á sama tíma hefur bankinn bætt kjör sín á fjármagnsmarkaði.

Eiginfjárhlutfall í lok júní var 18,0% samanborið við 23,5% í árslok 2015. Lækkunin er í samræmi við áætlun og skýrist að miklu leyti af lækkun hlutafjár sem samþykkt var á hlutahafafundi fyrr á árinu. Lausafjárstaða bankans er sterk, LCR 211%, og bankinn er vel í stakk búinn til þess að takast á við mögulegt fjárútflæði í kjölfar afnáms fjármagnshafta.

Árhlutauppgjör Kviku 1H 2016

Til baka