Kvika hefur undirritað samning um kaup á öllu hlutafé í Öldu sjóðum hf. Kaupin
eru gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki eftirlitsstofnana.
Alda
rekur 11 verðbréfasjóði og aðra sjóði um
sameiginlega fjárfestingu auk þess að vera söluaðili sjóða í umsjón Aberdeen
Asset Management og Hermes Investment Management. Heildareignir í stýringu hjá
Öldu nema 45 milljörðum króna og hjá félaginu starfa sex starfsmenn með mikla
reynslu á sviði eignastýringar. Félagið hefur á undanförnum árum náð mjög góðum
árangri í sjóðastýringu og umsvif þess aukist verulega.
Kvika
er eini sérhæfði fjárfestingabanki landsins með sterka stöðu á sviði
markaðsviðskipta og öfluga eignastýringu, fyrirtækjaráðgjöf, sérhæfða
lánastarfsemi og einkabankaþjónustu. Kvika festi á dögunum kaup á öllu hlutafé í
Virðingu hf. með það að markmiði að sameina félögin. Kaupin á Virðingu hf. eru
háð samþykki eftirlitsstofnana og eru nú til umfjöllunar hjá Fjármálaeftirlitinu
og Samkeppniseftirlitinu.
Með
kaupunum á Virðingu og Öldu verður Kvika einn umsvifamesti aðili í
eignastýringu á Íslandi með um 280 milljarða króna í stýringu.